Vel heppnað golfmót 2020

Vel heppnað golfmót 2020

Sigurliðið

Fimmtudaginn 11. júni 2020 hófu 24 hetjur með MBA gráðu frá HÍ leik á Golfvellinum Brautarholti á Kjalarnesi. Boðið var uppá klassískt íslenskt veður, talsverðan vind auk þess sem regndropar létu sjá sig. Hetjurnar létu það hins vegar ekki á sig fá og spiluðu skemmtilegt og krefjandi golf á frábærum golfvelli í stórbrotnu landslagi Brautarholts.

Spilaðar voru 9 holur með fjögurra manna Texas Scramble fyrirkomulagi. Eftir að mótsnefnd hafði skipt hópnum í 6 lið hófust leikar um kl. 15 þennan dag. Eftir rúmlega tveggja stunda baráttu við sjálfan sig og náttúruöflin þá luku sáttir en þreyttir MBA félagar leik um kl. 17.30. Í glæsilegum golfskála GBR beið þeirra heit kjúklingasúpa og hjartahlýja að leik loknum. Golfnefnd tók við skorkortum og tilkynnti að því loknu úrslitin. Í fyrsta sinn var glæsilegur farandbikar afhentur sigurvegurunum, en bikarinn er gjöf félags MBA HÍ alumni. Fyrstu þrjú sætin fengu glæsilega verðlaunapeninga um hálsinn, ásamt gjöfum frá velunnurum félagsins. Þá voru dregnir út glæsilegir vinningar, auk þess sem allir fengu teigjafir afhentar. Það voru glaðir golfarar sem héldu heim á leið að móti loknu og enginn fór tómhentur heim.

Stjórn félagsins vilja þakka golfnefndinni fyrir skipulagninguna á þessu frábæra og velheppnaða golfmóti. Í nefndinni sátu Guðmundur Pálmason, Hlífar Ragnarsson, Sigurjón Hjaltason og Vilhjálmur Bergs. Það var kominn tími til að endurvekja þessa frábæru hefð og ljóst að héðan í frá verður um árlegan viðburð að ræða.

Við sjáumst eiturhress með golfkylfur að lofti að ári, en þess á milli sjáumst við vonandi sem oftast á öðrum skipulögðum viðburðum félags MBA HÍ alumni.