Lög félags MBA HÍ alumni

Stofnfundur 30. september 2004

 

I. Kafli: Heiti félagsins, heimili og hlutverk

1. gr. Félagið heitir MBA HÍ alumni. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Hlutverk félagsins er að stuðla að faglegum, félagslegum og efnahagslegum ávinningi þeirra sem útskrifast hafa með MBA-prófgráðu frá Háskóla Íslands og að styðja við áframhaldandi þróun og framgöngu námsins við Háskóla Íslands.

3. gr. Tilgangi félagsins hyggst félagið ná með því að:


• Stuðla að símenntun félaga

• Sinna fræðslu, efla og viðhalda tengslaneti milli félaga

• Standa vörð um sameiginlega hagsmuni félaga

 

II. Kafli: Félagsaðild, félagsgjald

4. gr. Allir þeir sem útskrifast með MBA prófgráðu frá Háskóla Íslands eru sjálfkrafa skráðir á félagalista.

Meðan á MBA-námi í HÍ stendur eru nemendur skráðir í félagið í formi aukaaðildar og fá tilkynningar um atburði á vegum félagsins. Fyrsta árs nemar greiða ekki félagsgjöld.

Þeir sem lokið hafa MBA prófgráðu frá erlendum háskólum geta sótt um aðild að félaginu og tekur stjórn félagsins ákvörðun um hvort heimila skuli inngöngu. 

Óski félagsmaður þess að vera tekinn af félagalista ber honum að tilkynna það stjórn félagsins skriflega eða með tölvupósti á opinbert netfang félagsins mba.felagid@gmail.com

Þeir sem eru á félagalista fá sendar tilkynningar um atburði á vegum félagsins og aðrar upplýsingar sem félagið kýs að senda frá sér.

5. gr. Árgjald félagsmanna ákvarðast á árlegum aðalfundi félagsins. Reikningsár félagsins er frá 1. janúar – 31. desember.

Stjórn félagsins innheimtir félagsgjöld árlega.

Rafræn sending reikninga í heimabanka félagsmanna telst fullgild innheimtuaðferð.

Greiðsla félagsgjalda telst saðfesting á inngöngu í félagið.

 

III. Kafli: Félagsfundir, aðalfundir

6. gr. Félagsfundi skal halda samkvæmt ákvörðun stjórnar eða að ósk a.m.k. 20% félagsmanna í félaginu. Skal ósk félagsmanna gerð skriflega og fundarefni tilgreint.


7. gr. Aðalfundur skal haldinn fyrir apríllok ár hvert. 

Félagsstjórn skal boða til aðalfundar og almennra funda með tilkynningu til hvers félagsmanns með bréfi eða rafpósti. Það er á ábyrgð félagsmanna að félagsstjórn sé með rétt heimilisfang og netföng félaga.

Aðalfund skal boða með minnst fjórtán daga fyrirvara en almenna fundi með minnst sjö daga fyrirvara.

Fundarefnis skal getið í fundarboði. Aðalfundur er lögmætur ef hann er löglega boðaður.

Verði fundur ólögmætur vegna annmarka að þessu leyti skal boðað til nýs fundar innan mánaðar með sjö daga fyrirvara. Við ákvarðanatöku á fundum félagsins ræður afl atkvæða meirihluta fundarmanna, nema þegar um er að ræða breytingar á samþykktum þessum sbr. 12. gr.

Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa þér félagsmenn sem greitt hafa félagsgjald síðastliðins árs.

8. gr. Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:

• Skýrsla stjórnar og umræður um hana

• Framlagning ársreikninga til samþykktar og umræður um þá

• Kosning til stjórnar

• Kosning skoðunarmanns og varamanns hans

• Ákvörðun félagsgjalda

• Mál sem tiltekin eru í fundarboði

• Önnur mál

 

IV. Kafli: Stjórn og framkvæmdaraðili félagsins

9. gr. Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum, formanni, gjaldkera, ritara og tveimur meðstjórnendum.

Þau ár þar sem síðasti tölustafur ártals er slétt tala skal kjósa formann, tvo stjórnarmenn og einn varamann til tveggja ára. Þau ár þar sem síðasti tölustafur ártals er oddatala skal kjósa tvo stjórnarmenn og einn varamann til tveggja ára. Formaður er kosinn sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórn með sér verkum.

Stjórn félagsins stýrir öllum málefnum félagsins milli aðalfunda og gætir hagsmuna þess gagnvart þriðja aðila.

10. gr. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnarmanna sækir fund. Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála. Verði atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum. Halda skal fundargerð um stjórnarfundi.

Formaður boðar til stjórnarfunda. Hver stjórnarmaður getur krafist stjórnarfundar. Komi fram krafa um stjórnarfund skal hann haldinn innan tveggja vikna frá því óskað var eftir fundi.

11. gr. Fundargerðir skulu haldnar og þar skráð það sem gerist á fundum. Fundargerðir skulu vera aðgengilegar þeim félagsmönnum sem þess óska.

 

V. Kafli: Ýmis ákvæði

12. gr. Samþykktum þessum má breyta á lögmætum aðalfundi eða auka aðalfundi með 2/3 hlutum greiddra atkvæða. Tillögur félagsmanna um breytingar á samþykktum félagsins þurfa að berast stjórn þess 2 mánuðum fyrir aðalfund. Stjórn félagsins getur lagt fram tillögu um breytingar á samþykktum félagsins svo fremi sem þeirra sé getið í fundarboði og löglega sé til aðalfundar boðað. Getið skal um það í fundarboði að tillögur um breytingar á samþykktum liggi fyrir og hverjar þær eru. Einfaldan meirihluta atkvæða þarf til samþykktar annarra tillagna en skv. 13. gr.

13. gr. Félaginu verður einungis slitið ef tillaga um það er samþykkt í stjórn félagsins og í framhaldi af því á aðalfundi eða auka aðalfundi. Tillaga um félagsslit nær ekki fram að ganga nema að hún hljóti stuðning 2/3 hluta greiddra atkvæða.

14. gr. Verði ákveðið að leggja félagið niður skal eignum þess varið í samræmi við ákvörðun stjórnar og síðasta aðalfundar eða aukaaðalfundar, til almennra verkefna í samræmi við tilgang og starfsemi félagsins.


Lagabreytingar 2008 á 7., 9., 10. og 11. grein, samþykktar á aðalfundi 2008.

Lagabreyting 2009 á 4. grein, samþykkt á aðalfundi 2009.

Lagabreyting 2013 á 4., 5., 7., 9. og 10. gr. samþykktar á aðalfundi 2013.

Lagabreyting 2021 á 1., 3., 4., 5. og 7. gr. samþykktar á aðalfundi 2021.

Síða uppfærð / breytt 8. apríl 2021

Share by: